Hitakassinn

Tónlistarborgin Reykjavík í samstarfi við Hitt Húsið, Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar og Hörpu tónlistarhús bjóða fulltrúum atriðanna sem komast áfram í úrslit á Músíktilraunum 2021 til þátttöku í skemmtilegu og hagnýtu námskeiði um tónlistariðnaðinn sem fram fer eftir keppnina.

Hitakassinn

Hvað er í boði?

Hvað er í boði?

Á námskeiðinu sem byggist upp á skemmtilegum fyrirlestrum, pallborðsumræðum og hagnýtum verkefnum verður farið yfir allt það helsta sem tónlistarfólk ætti að vita um tónlistariðnaðinn.

Þátttakendur fá aðstoð við markaðssetningu, kynningu og gerð kynningarpakka, sem og hjálp við skilgreiningu á markhóp sínum, leiðslu í fjármálarekstri tónlistarverkefnis, úrlausn tækniatriða með fagfólki og fleira. Einnig verður mikil áhersla lögð á að efla tengslanet þátttakenda innan íslenska tónlistariðnaðarins með þekktum gestafyrirlesurum.

Rúmum tveimur vikum eftir námskeiðið verður blásið til tónleika í Kaldalóni í Hörpu þar sem þátttakendur fá tækifæri til þess að spila fyrir lykilfólk innan íslenska tónlistariðnaðarins og láta reyna á það sem kennt var á námskeiðinu.

Markmiðið með Hitakassanum er að valdefla ungt tónlistarfólk sem er að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni með því að auka þekkingu þess á tónlistariðnaðinum þannig að það verði betur í stakk búið til að þróa sinn feril og taka góðar ákvarðanir varðandi hann strax í upphafi.

 

Kennslan fer fram í fundarherberginu Rímu í Hörpu dagana 18.-19. september og 2.-3. október frá klukkan 10:00 – 18:00 en tónleikarnir fara fram í Kaldalóni í  Hörpu 22. Október (tímasetning verður staðfest síðar).

 

Leiðbeinandi

Leiðbeinandi Hitakassans 2021 er Anna Jóna Dungal, tónlistabransaráðgjafi með BA(hons) gráðu í Music Business frá háskólanum BIMM Berlin. Eftir tæp 7 ár í Berlín þar sem hún rak eigin tónleikaröð í 2,5 ár, stýrði tónleikahátíðum, kenndi námskeið tengd tónlistarbransanum og gaf út hlaðvarp kom hún heim til Íslands snemma árs 2021 og stofnaði ráðgjafafyrirtækið OK Agency (www.okagency.is). Þar sérhæfir hún sig í að aðstoða íslenskt tónlistarfólk og tónlistarhátíðir við markaðssetningu og verkefnastjórnun en Anna Jóna kennir einnig ýmis námskeið hjá Skýinu og skipuleggur viðburði og lagasmíðabúðir.