Ómetanlegur styrkur úr Minningarsjóði Péturs W. Kristjánssonar.
Pétur Wigelund Kristjánsson, oft kallaður Pétur poppari, var fæddur 7. janúar 1952 í Reykjavík og lést því miður um aldur fram árið 2004. Allt frá árinu 2012 hafa vinningshafar Músíktilrauna fengið rausnarlega upphæð úr minningarsjóði sem var stofnaður í nafni hans. Pétur byrjaði í hljómsveitinni Pops stuttu eftir fermingu og upp frá því var ekki aftur snúið.
Hljómsveitir sem Pétur var í voru t.d. Svanfríður, Náttúra, Start og svo P-böndin; Paradís, Póker og Pelican sem Pétur stofnaði. Með þessum hljómsveitum setti hann mark sitt á íslenskt tónlistarlíf um áratugaskeið sem einn duglegasti og litskrúðugasti poppari þjóðarinnar.
Lög sem Pétur söng og eru mörgum kunn eru t.d. Jenny Darling, Seinna meir og Rabbits. Hann var alla tíð viðloðandi tónlist og tróð jafnan upp með hinum ýmsu hljómsveitum. Til að mynda átti hann endurkomu með laginu Krókurinn með Sálinni hans Jóns míns en textinn í því lagi var saminn út frá orðfæri Péturs sem ávallt þótti sérstakt og einnig tróð hann upp með Stjórninni og Gildrunni. Síðasta sveitin sem Pétur stofnaði var Gargið.
Pétur var einstakur persónuleiki, ljúfur og laus við alla stæla. Síða hárið, bítlaskórnir og töffaralega útlitið endurspeglaði á engan hátt einlæga og hlýja manninn sem Pétur hafði að geyma. Hann var hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom og hreif fólk með sér með persónutöfrum, ljúfri lund og skemmtilegheitum.
Pétur var fljótur að sjá út út efnilega tónlistarmenn og aðstoðaði marga þau ár sem hann starfaði við tónlistarútgáfu. Hann hóf sjálfur sinn feril í bílskúr í Laugarneshverfinu í Reykjavík og þekkti því á eigin skinni harkið og allt sem fylgir því að koma sér og tónlist sinni á framfæri.
Minningarsjóður Péturs W. Kristjánssonar var stofnaður í þeim tilgangi að styðja við bakið á frambærilegu tónlistarfólki og hljóta sigurvegarar Músíktilrauna styrk úr sjóðnum.