Saga Músíktilrauna
2021 Ólafur Kram – 2020 covid 19, keppni féll niður – 2019 Blóðmör – 2018 Ateria – 2017 Between Mountains – 2016 Hórmónar – 2015 Rythmatik – 2014 Vio – 2013 Vök – 2012 RetRoBot – 2011 Samaris – 2010 Of Monsters and Men – 2009 Bróðir Svartúlfs – 2008 Agent Fresco – 2007 Shogun – 2006 The Foreign Monkeys – 2005 Jakobínarína – 2004 Mammút – 2003 Dáðadrengir – 2002 Búdrýgindi – 2001 Andlát – 2000 XXX Rottwiler hundar – 1999 Mínus – 1998 Stæner – 1997 Soðin Fiðla – 1996 Stjörnukisi – 1995 Botnleðja – (silt) – 1994 Maus – 1993 Yukatan – 1992 KolrassaKrókríðandi (Bellatrix) – 1991 Infusoria (Sororicide) 1990 – Nabblastregir (Umbilical cords) – 1989 Laglausir – 1988 Jójó – 1987 Stuðkompaníið – 1986 Gipsy – 1984 Verkfall kennara, keppni féll niður – 1983 Dúkkulísurnar – 1982 Dron
Tilraunirnar voru haldnar í Tónabæ, sem var allt til ársins 2000 staðsettur í Skaftahlíð 24, Reykjavík, en þá flutti Tónabær sig í Safamýrina. Undankvöldin voru ýmist 4-5 og var aðsóknin gífurlega góð; oft og tíðum var áhorfendafjöldinn hátt í 500-600 manns. Til gamans má geta að á fyrstu Músíktilraunirnar kostaði heilar 50 kr. inn.
Tímar í hljóðveri hafa alltaf verið aðalverðlaun Músíktilrauna og fljótlega bættust fleiri styrktaraðilar í hópinn. Efnilegustu eða bestu hljóðfæraleikarar voru valdir og verðlaunaðir með úttektum í hinum ýmsu hljóðfæraverslunum. Sérstök dómnefnd kom svo fljótlega til skjalanna til að stemma stigsu við „vinsældakosningunum“ svokölluðu, en áhorfendur réðu því hvaða hljómsveitir fóru áfram. Dómnefnd fór þá að velja áhugaverðar hljómsveitir áfram í úrslit, burtséð frá því hvað áhorfendur höfðu valið.
Oft er talað um að Músíktilraunir hafi verið stökkpallur fyrir ungar og óreyndar hljómsveitir út í hinn „harða tónlistarbransa“. Hljómsveitir á borð við Kolrössu Krókríðandi, Botnleðju, Maus, Mínus, Jakobínurínu, Agent Fresco, Mammut, Of Monsters and Men, Vök o.fl. eru ágætis vitnisburður um að ýmis ævintýri taka við að loknum tilraununum.
Margar af þessum ofangreindu hljómsveitum stukku ofan í djúpu laugina að loknum Músíktilraunum. Þær tóku upp sínar fyrstu breiðskífur, fóru í hljómleikaferðalög til fjarlægra landa, spiluðu með heimsfrægum hljómsveitum og upplifðu „rokkdrauminn“ á ýmsa vegu. Eins og gengur og gerist þá urðu sumar þessara hljómsveita langlífari en aðrar, en þannig er nú þessi heimur. Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma öllum þeim hljómsveitum og tónlistarmönnum sem ekki endilega náðu áfram í úrslit, eða fengu verðlaun. Margar þeirra héldu áfram sínu starfi, og náðu langt, en ekki endilega undir sömu nöfnum og þegar keppnin fór fram. Það er ekki síst reynslan og samveran við aðra tónlistarmenn sem er svo verðmæt og mikilvægur þáttur fyrir þá sem taka þátt. Nýjar hugmyndir og hljómsveitir spretta upp og blómstra í íslensku tónlistarflórunni. Það er einmitt einn helsti tilgangur Músíktilraunanna.
Það er skemmtileg staðreynd að fyrsta hljómsveitin til að stíga á stokk í Músíktilraunum 1982, var kvennahljómsveitin Sokkabandið, en oft hefur verið fjallað um skort á þátttöku stúlkna í þessum tilraunum. Það hafa þó nokkuð oft verið stúlknasveitir sem hafa komist í úrslit, eða unnið, eins og til dæmis; Dúkkulísurnar, Kolrassa Krókríðandi, Á túr, Mammút, Vök, Between Mountains, Atería o.fl.
Úrslitakvöld tilraunanna voru allt til ársins 2001 haldin í höfuðstöðvum Tónabæjar en árið 2001 var í fyrsta skipti brugðið á það ráð að færa úrslitin í stærra húsnæði. Íþróttahús Fram í Safamýrinni varð fyrst fyrir valinu og árin á eftir hafa bæði undankvöldin og úrslitin verið haldin víða um Reykjavík. Hitt Húsið í Pósthússtræti, Austurbær við Snorrabraut, Tjarnarbíó, Loftkastalinn, Íslenska Óperan, Listasafn Reykjavíkur og Harpa, hafa allt verið vettvangur þessarar glæsilegu tónlistarhátíðar í gegnum árin. Allar götur síðan hefur þessi tónlistarviðburður verið einn aðalvettvangurinn fyrir ungar íslenskar hljómsveitir og tónlistarfólk á aldrinum 13-25 ára til að koma tónlist sinni á framfæri.